Áfengisverslun norska ríkisins, Vinmonopolet eins og hún heitir, fagnar 100 ára afmæli sínu í ár og er óhætt að segja að á ýmsu hafi gengið þessa öld, sem verslunin hefur starfað, enda stofnárið 1922 á miðju brennivínssölubanni hinna annáluðu bannára sem í Noregi stóðu frá 1916 til 1927.
Kveikjan að stofnun ríkiseinokunarsölu áfengis í Noregi var þó ekki innan landamæra konungsríkisins skandinavíska, heldur suður í Frakklandi þar sem reiðir stjórnmálamenn og fiskur urðu til þess að Norðmenn opnuðu áfengissölu.
Þetta útskýrði Jens Nordahl, upplýsingafulltrúi Vinmonopolet, í spjallþættinum Lindmo í norska ríkisútvarpinu NRK á föstudaginn, en þar fær þáttastjórnandinn Anne Lindmo jafnan til sín góða gesti í vikulokin sem kunna eina góða sögu eða tvær.
„Allt var á suðupunkti í París. Frakkarnir stjórnuðu okkur algjörlega,“ byrjar Nordahl frásögn sína af atburðum snemma á þriðja áratug aldarinnar sem leið. „Vinmonopolet var hreinlega stofnað með það fyrir augum að veita Frökkum markaðsaðgang að norsku samfélagi, svo þeir gætu selt okkur vín,“ heldur hann áfram.
Þarna hafi Frakkar komið auga á ákveðið markaðsmisræmi milli landanna sem ku hafa strokið franskri kaupmannastétt andhæris, útskýrir upplýsingafulltrúinn. Staðan var nefnilega sú að Frakkar keyptu fisk af Norðmönnum í gríð og erg og þótti, er þarna var komið sögu, mikið óréttlæti fólgið í því að þeir héldu lífinu í norskri útgerð á meðan engir peningar bárust frá Noregi fyrir franska vöru.
„Bindindishreyfingin hafði sótt hart fram í Noregi frá því 1814 þar sem mikið fyllerísvesen var á landanum á 19. öld. Árið 1913 var svo nær allur Noregur orðinn þurr. Aðeins þrettán sveitarfélög seldu léttvín og brennivín,“ segir Nordahl. Frakkar hafi þá sett Norðmönnum úrslitakosti. Ætluðu þeir að kaupa norskan fisk áfram skyldu Norðmenn búa svo um hnútana að allir landsmenn gætu keypt eins mikið vín og þá lysti.
„Við þetta spratt upp diplómatísk krísa og sendinefnd bestu manna Noregs var send til Frakklands. Eftir harðar samningaviðræður varð Vinmonopolet til sem lausn norska ríkisins á vandanum,“ heldur sagnfræði Nordahls áfram. Versluninni hafi leyfst að selja dauf vín, en brennivínið var bannað.
Frá þessu hafi þó verið vissar undantekningar, til dæmis hafi fólk, sem náð hefði 20 ára aldri, mátt kaupa sterkt vín gæti það sýnt fram á að notkun þess væri í lækningaskyni. Sú undantekning hafði ótrúlegustu aukaverkanir, að sögn Nordahls, svo sem gríðarlega misnotkun brennivínsuppáskrifta frá læknum, sem kölluðust einfaldlega brennevinsresept á norsku. Hlaut læknir nokkur dóm fyrir að veita 48.657 slík vottorð á einu og sama árinu.
Önnur undantekning var vegna veikra hesta. Manneskja átti rétt á hálfflösku vegna krankleika síns, en hross mátti fá tvær slíkar til að hressa sig við. „Hestahóstinn var læknaður með koníaki. Allir hestaeigendur gengu af göflunum,“ segir Nordahl.
Bannárin liðu undir lok í Noregi, en nýtt vandamál blasti við í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá ríkti vöruskortur í landinu og harkalega var bitist um dropann. Mynduðust þá langar biðraðir við áfengisverslanirnar þar sem jafnvel kom til blóðugra átaka.
„Menn þurftu að vera harðhausar til að komast gegnum raðirnar. Þá voru hendur látnar skipta og fólki var hent í gegnum glugga,“ segir upplýsingafulltrúinn, án þess að tiltaka hvort það hafi verið inn eða út um gluggana.
Við þessari óáran hafi norsk yfirvöld brugðist með því að banna biðraðir. „Ef þú stóðst í röð fyrir klukkan hálfátta að morgni gastu átt von á sekt eða dvöl í klefa,“ segir Nordahl.
Verkföll settu einnig mark sitt á starfsemi áfengisútsölunnar, einkum árabilið 1978 til 1986 eins og sagnfræðingarnir Olav Hamran og Christine Myrvang sögðu frá í bók sinni sem kom út í tilefni af 75 ára afmæli Vinmonopolet undir síðustu aldamót. Rifjar Hamran, sem nú vinnur að annarri bók í tilefni aldarafmælisins, sérstaklega upp 14 vikna verkfall árið 1982, en kveikja annars verkfalls, árið 1986, hafi verið uppsögn trúnaðarmannsins Håkon Høst.
Nordahl kveður rekstur Vinmonopolet á 21. öldinni ganga öllu rólegar fyrir sig en gjarnan var á öldinni sem leið. Þó verði atgangurinn enn töluverður þegar fágæt vín koma á markaðinn eða nýir árgangar mjög vinsælla vína. Þá flykkist erlent vínáhugafólk jafnan til Noregs auk þess sem áhugasamir Norðmenn hafi sofið fyrir utan áfengisútsölur eins og Bjørn Håvard Larsen gerði í febrúar 2019 þegar 2015-árgangurinn af rauðu búrgundarvíni var á leið í sölu en Larsen ræddi hvort tveggja við NRK og mbl.is þegar hann vaknaði í svefnpoka sínum við dyr ríkisins.
Hamran sagnfræðingur er að lokum spurður hvort einkasala ríkisvaldsins á áfengi muni lifa um aldur og ævi í Noregi.
„Það er snúið. Vel má vera að þetta verði enn við lýði eftir 100 ár og eins að svo verði ekki. Eins og staðan er núna nýtur Vinmonopolet vinsælda og stuðnings almennings,“ svarar sagnfræðingurinn.