Yfirvofandi ógn réttlæti flutning sendiráðsfólks

Stór samstöðuganga fór fram í miðborg Kænugarðs í gær.
Stór samstöðuganga fór fram í miðborg Kænugarðs í gær. AFP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir þá ógn sem vofir yfir vegna hugsanlegrar innrásar Rússa í Úkraínu, réttlæta það að flytja á brott sendiráðsstarfsfólk Bandaríkjanna sem haft hefur aðsetur í Kænugarði. BBC greinir frá.

Fleiri þjóðir hafa fylgt fordæmi Bandaríkjanna, en Kanadamenn og Ástralir eru einnig að flytja sitt sendiráðsstarfsfólk frá Kænugarði til vestrænu borgarinnar Lyiv, rétt við landamæri Póllands. Sendiherra Breta ætlar hins vegar að vera áfram í Kænugarði ásamt lykilstarfsfólki.

Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, hefur hins vegar hvatt bæði sína borgara og aðra til að halda ró sinni. Óttinn sé versti óvinurinn.

Blinken segir yfirvofandi ógn réttlæta brottflutning.
Blinken segir yfirvofandi ógn réttlæta brottflutning. AFP

Segja viðbrögðin hysterísk 

Rússar hafa neitað því staðfastlega að ætla sér að ráðast inn í landið en yfir 100 þúsund rússneskir hermenn hafa þó komið sér fyrir við landamæri ríkjanna. Bandaríkjamenn hafa varað Rússa við því að innrás þeirra í Úkraínu verði mætt af hörku, en stjórnvöld í Kreml segja viðbrögðin hysterísk.

Ríkisborgarar fjölda þjóða hafa verið hvattir til að þess að yfirgefa Úkraínu sem fyrst, en fyrir utan Bandaríkin hafa meðal annars Bretar, Þjóðverjar, Hollendingar, Ástralir, Nýsjálendingar, Norðmenn, Danir og hvatt borgara sína til að yfirgefa landið.

Óskar ætlar ekki að yfirgefa landið

Fréttablaðið greindi frá því í gær að minnsta kosti 16 Íslendingar væru í Úkraínu og tveir til viðbótar með náin tengsl. Áður hafði verið talið, líkt og mbl.is greindi frá, að þeir væru átta. Utanríkisráðuneyti Íslands hefur hvatt Íslendinga til að fylgjast með viðvörunum annarra Norðurlandaþjóða og láta vita af sér.

Ljósmyndarinn og myndlistarmaðurinn Óskar Hallgrímsson er einn þeirra Íslendinga sem eru í Úkraínu, en hann býr í Kænugarði ásamt eiginkonu sinni og ætlar ekki að yfirgefa landið.

Í samtali við mbl.is í gær sagði hann daglegt líf halda áfram í borginni og að ekki væri hægt að sjá neinn mun á lífinu og tilverunni þrátt fyrir ógnina sem stafaði af mögulegri innrás. Í gær hafi þó verið stór sam­stöðuganga í miðborg­inni. Hann sagði tilfinninguna, að vita af yfirvofandi innrás, ógnvekjandi enda sé spurning flestra hve stór innrásin verði, en ekki hvort af henni verði.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Pútín, forseti Rússlands, ræddu saman í síma í gær og er Biden sagður hafa ít­rekað að frek­ari rúss­nesk inn­rás í Úkraínu myndi valda um­fangs­mikl­um mann­leg­um þján­ing­um og grafa und­an stöðu Rúss­lands á alþjóðavett­vangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert