Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sagði Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, að Rússar notfærðu sér jarðgasleiðsluna Nord Stream 2 sem pólitískt vopn.
Gasleiðslan umdeilda sem liggur framhjá Úkraínu hefur valdið vaxandi ósætti þegar kemur að samskiptum Þjóðverja við bandarísk- og úkraínsk stjórnvöld.
„Það eru mismunandi skoðanir á mati okkar“ á gasleiðslunni sem liggur frá Rússlandi til Þýskalands, sagði Zelensky, að loknum viðræðum við Scholz í Kænugarði.
„Okkur finnst hún greinilega vera landfræðilegt, pólitískt vopn“.
Rússar hafa lokið smíði gasleiðslunnar, sem liggur undir Eystrasalt, en Þjóðverjar hafa ekki enn samþykkt notkun hennar.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur varað við því að hann muni loka fyrir leiðsluna ef Rússar ráðast inn í Úkraínu.
Án þess að nefna Nord Stream 2 á nafn sagði Scholz að „enginn ætti að efast um staðfestu og viðbúnað“ stjórnvalda í Berlín til að refsa Rússum ef það kemur til árásar á nágranna þeirra.
„Þá munum við bregðast við og aðgerðirnar munu ganga mjög langt og hafa umtalsverð áhrif á tækifæri Rússa þegar kemur að efnahagslegri þróun,“ sagði Scholz.