Leiðir á þrengslum – keyptu kirkju

Kirkjan í Telemark, hið nýja heimili Kristiansen og Martins. Allir …
Kirkjan í Telemark, hið nýja heimili Kristiansen og Martins. Allir nágrannarnir, 20 talsins, þurftu að samþykkja búsetu þeirra í kirkjunni og hafði hver og einn neitunarvald. Samþykkið fékkst vandræðalaust og einn nágrannanna bauð þeim félögum gistingu ef með þyrfti meðan á standsetningunni stóð. Ljósmynd/Úr einkasafni

„„Guð minn góður, hvað höfum við gert?“ var það sem ég hugsaði með mér fyrsta mánuðinn,“ segir Ole Martin Thorshaug Kristiansen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK um nýlega fjárfestingu hans og portúgalska kærastans André Martins. Þeim félögum leiddist orðið að búa í örsmárri íbúðarkytru í Fredensborg í miðbæ Óslóar svo þeir tóku sig til og keyptu sér kirkju sem þeir hafa nú tekið sér bólfestu í.

Kirkja þessi er 100 ára gömul, byggð árið 1920 og staðsett í Akerlund í Telemark-fylki, suðaustur af norsku höfuðborginni. Áður tilheyrði hún lúthersk-evangelískum söfnuði í Akerlund, en þegar Kristiansen og Martins sáu hana auglýsta til sölu á stafræna markaðstorginu finn.no tóku þeir að hugsa sitt. Þeir höfðu greinst með Covid-19 árið 2020 og upplifað þá skelfingu að litla íbúðin þeirra í Ósló, sem þeir höfðu talið henta þeim fullkomlega, varð þeim eins og lítill fangaklefi í sóttkví og tilheyrandi hremmingum sem heimsbyggðin hefur kynnst mætavel hin síðustu misseri.

@2hommar1kirkja

Kristiansen starfaði á þessum tíma hjá Hjálparstofnun kirkjunnar í Ósló þar sem samstarfsmaður benti honum á guðshúsið í Telemark á fasteignasíðum finn.no. Þeir Martins létu kylfu ráða kasti, gerðu tilboð og fengu lyklana að kirkjunni afhenta 1. maí í fyrra. Síðan hafa þeir skemmt Instagram-verjum með sögum og myndum af standsetningu nýja heimilisins á aðgangi sínum þar, sem gengur undir heitinu @2gays1church, eða @2hommar1kirkja.

Takið hinni postullegu kveðju. Ole Martin Thorshaug Kristiansen búinn að …
Takið hinni postullegu kveðju. Ole Martin Thorshaug Kristiansen búinn að koma sér notalega fyrir í nýju stofunni sinni í 100 ára gamalli kirkju í Telemark. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Okkur langaði í flott og sérstakt hús, af því vorum við mjög uppteknir,“ útskýrir Kristiansen, „samt var það dálítið óraunverulegt að kaupa kirkju án allra vatnslagna og með útikamri,“ heldur hann áfram, án þess að segja nokkuð af næturferðum á klósettið sem eðli málsins samkvæmt er líklega staðsett í kirkjugarði.

NRK slær því fram að ekki sé daglegt brauð að samkynhneigt par kaupi kirkju í Telemark. Því hafi þó verið býsna vel tekið að sögn Kristiansen. Þegar ljóst varð að þeir hygðust búa í kirkjunni þurftu þeir að gera 20 nágrönnum grein fyrir þeirri fyrirætlun og hefði hver og einn nágrannanna fyrir sig getað beitt neitunarvaldi. „Hefði einhver einn sett sig á móti þessu hefði sá getað eyðilagt drauminn okkar,“ segir Kristiansen, en ekkert slíkt hefði þó gerst.

Þvert á móti hrifust nágrannarnir af þessu norsk-portúgalska pari og einn þeirra bauð þeim meira að segja að gista í íbúðinni hjá sér þyrftu þeir þess við meðan þeir stóðu í framkvæmdum í guðshúsinu.

„Ungir og vitlausir“

„Við ákváðum bara að láta vaða,“ segir Kristiansen, en þeir Martins renndu blint í sjóinn við kaupin og keyptu kirkjuna áður en öll samþykkin lágu fyrir. Skýringuna á þessari fífldirfsku kveður hann einfaldlega þá að þeir séu „ungir og vitlausir“ og játar að þeim hafi borist til eyrna að hann hafi ginnt Portúgalan með sér í kaupin. „Af því að ég er norskur átti ég að hafa platað hann út í þetta. Hann hefur hins vegar tekið fullan þátt í öllum þessum „crazy“ ákvörðunum. Svona lagað gerir hversdagslífið svo miklu skemmtilegra,“ segir Kristiansen sem upphaflega kemur frá Steinkjer í Þrændalögum.

Rúmgóð setustofa þar sem áður stóðu kirkjubekkir með sálmabókum og …
Rúmgóð setustofa þar sem áður stóðu kirkjubekkir með sálmabókum og lofthæðin ekkert slor sem Kristiansen þakkar guði nú fyrir, enda tveggja metra hár. Ljósmynd/Úr einkasafni

Margt er enn ógert, til dæmis eru vatnslagnir og afrennsli enn ekki til staðar, meðal annars vegna snarhækkunar efnisverðs í kórónufaraldrinum, en þeir félagar kæra sig kollótta um slíka smámuni og eitt gleður Kristiansen sérstaklega á nýju heimili, en það er hæðin upp undir loft. „Ég er tveggja metra hár, lofthæðin í venjulegum íbúðum er yfirleitt býsna lítil fyrir mig,“ segir hann að skilnaði við NRK, þótt Bjarti í Sumarhúsum hafi á sínum tíma þótt frelsið meira vert en lofthæðin í bænum.

NRK

Trønder-Avisa (læst öðrum en áskrifendum)

Telemarksavisa (læst öðrum en áskrifendum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert