Sjö er látnir, þar af tvö börn, eftir að sprenging varð í suðurhluta Frakklands.
Íbúar sögðust hafa heyrt sprengingu um klukkan hálftvö í nótt að staðartíma sem varð til þess að eldur kviknaði í byggingum beggja megin við götu í bænum Saint-Laurent-de-la-Salanque, um 15 kílómetrum frá borginni Perpignan.
„Ég heyrði mjög háværa sprengingu og sá síðan miklar eldtungur,“ sagði nágranninn Nadine Bret.
Hún sagði að endurbætur hafi verið í gangi á skyndibitastað á fyrstu hæð einnar af byggingunum.
Slökkviliðsmenn hafa haldið áfram í dag að leita að fórnarlömbum.
Einn maður á fertugsaldri var fluttur á sjúkrahús alvarlega slasaður eftir að hafa stokkið út úr glugga á annarri hæð til að forðast eldinn.
Rannsókn er hafin á því hvað olli sprengingunni.