Rússar draga hersveitir til baka

Vladímír Pútín, forseti Rússlands.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Stjórnvöld í Úkraínu telja að viðræður við Rússa hafi tekist og að innrás sé ekki lengur yfirvofandi.

Tvær rússneskar hersveitir sem hafa haldið til við landamæri Úkraínu eiga að snúa aftur til herstöðva sinna í dag. Gæti þetta verið fyrsta skrefið í að aflétta þeirri spennu sem hefur byggst upp á undanförnum vikum við landamæri Úkraínu þar sem talið er að um 100 þúsund rússneskir hermenn séu staðsettir. Miklar áhyggjur hafa verið uppi vegna yfirvofandi innrásar.

Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins sagði sveitirnar hafa lokið verkefnum sínum og séu þær nú að hlaða búnaði á lestar og undirbúa brottflutning. Stefnt er að því að hefja flutning til herstöðvanna í dag. Heræfingar víða annarsstaðar við landamærin munu þó halda áfram.

„Við og bandamönnum okkar hefur tekist að koma í veg fyrir frekari stigmögnun vígbúnaðar Rússa,“ sagði Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu við blaðamenn.

Töldu innrás líklega á næstu dögum

Ákvörðun Rússa kemur nú í kjölfar viðræðna milli Vladímírs Pútíns og ýmissa þjóðarleiðtoga Vesturlandanna. Pútín hefur ávallt þvertekið fyrir að innrás sé í kortunum og hefur jafnframt sakað fulltrúa Vesturlandanna um afskiptasemi. 

Spennan vegna yfirvofandi innrásar hefur verið mikil undanfarna daga eftir að Bandaríkjamenn töldu sig hafa komist yfir gögn sem gæfu til kynna að Rússar hygðust gera innrás í Úkraínu á næstu dögum, jafnvel áður en Vetrarólympíuleikunum í Peking myndi ljúka.  

Hafa þjóðir á borð við Bandaríkin, Kanada og Ástralíu flutt sendiráðsstarfsfólk frá Kænugarði til vest­rænu borg­ar­inn­ar Lyiv, rétt við landa­mæri Pól­lands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka