Joe Biden Bandaríkjaforseti og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sammæltust í gærkvöldi um að enn væri tími til að finna lausnir á Úkraínudeilunni og fyrir Rússa að draga herlið sitt til baka frá landamærunum.
Leiðtogarnir ræddust við símleiðis um kvöldmatarleytið í gær um ástandið, en Johnson varaði fyrr um daginn við því að það væri komið fram á „bjargbrún“.
Voru Johnson og Biden einnig sammála um að áframhaldandi viðræður við Rússa væru forgangsmál, og að gripið yrði til þungra refsiaðgerða ef til innrásar í Úkraínu kæmi.