Ekki einn einasti hermaður Rússa verði eftir

Varnarmálaráðherrar Rússlands og Hvíta-Rússlands ræða saman í byrjun febrúar, þeir …
Varnarmálaráðherrar Rússlands og Hvíta-Rússlands ræða saman í byrjun febrúar, þeir Sergei Sjoigu og Viktor Krenín. AFP

Vladimír Makei, utanríkisráðherra Hvíta-Rússlands, segir að „ekki einn einasti“ rússneski hermaður muni verða eftir í landinu eftir að umfangsmiklum sameiginlegum heræfingum ríkjanna tveggja lýkur.

Þetta tjáði Makei blaðamönnum á fundi í höfuðborginni Minsk í dag.

Varnarmálaráðuneytið og forsetinn Alexander Lúkasjenkó hefðu látið þetta skýrt í ljós.

Lest flytur rússnesk hergögn til Hvíta-Rússlands í janúar.
Lest flytur rússnesk hergögn til Hvíta-Rússlands í janúar. AFP

Engin raunveruleg merki

Rússnesk stjórnvöld tilkynntu fyrr í vikunni um endalok nokkurra heræfinga nærri landamærum Úkraínu, þar á meðal innan Hvíta-Rússlands.

En Vesturlönd óttast enn mögulega innrás í Úkraínu og hafa fullyrt að engin merki sjáist enn um að herlið sé raunverulega að hörfa til baka.

Enginn vilji stríð

Atlantshafsbandalagið hefur sagt heræfingar Rússa í Hvíta-Rússlandi sérstaklega uggvegkjandi. Þær marki hættulega stund fyrir Evrópu.

Makei kveðst hafa sagt stjórnvöldum í Kænugarði að það sem eigi sér stað við landamærin þýði ekki að neinn ætli að gera árás af nokkru tagi.

„Hvorki Moskva, né Minsk, né Kænugarður,“ vill stríð, sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert