Fordæma drög að viðurkenningu sjálfstæðis

Blinken segir að viðurkenningin myndi kalla á skjótt viðbragð.
Blinken segir að viðurkenningin myndi kalla á skjótt viðbragð. AFP

Stjórnvöld Bandaríkjanna fordæma harðlega þingsályktun sem samþykkt var á þingi Rússlands í gær, um að viðurkenna sjálfstæði tveggja héraða Úkraínu.

Um er að ræða héröðin Donetsk og Luhansk í austurhluta landsins, en aðskilnaðarsinnar studdir af Rússum hófu átök í landshlutanum árið 2014 og hafa ráðið lögum og lofum þar síðan.

Slík viðurkenning „fæli í sér gróft brot á alþjóðalögum,“ segir Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna í yfirlýsingu.

„Fullvalda og sjálfstæð“

Rússneska þingið samþykkti eins og áður sagði í gær að hvetja forsetann Vladimír Pútín til að viðurkenna héröðin tvö sem „fullvalda og sjálfstæð ríki“, á sama tíma og mikil spenna ríkir við landamæri Úkraínu vegna mikillar söfnunar herliðs Rússa.

„Samþykki Kreml þessa hvatningu þá jafngildir það því að rússneska ríkisstjórnin hafni algjörlega að virða skuldbindingar sínar samkvæmt Minsk-sáttmálanum,“ segir Blinken og vísar til samkomulags sem náðist árið 2014 og átti að binda enda á átök í Úkraínu.

Bætir hann við að tæki Pútín þá ákvörðun myndi það grafa undan yfirlýstri skuldbindingu Rússlands til að taka þátt í viðræðum um að ná friðsamlegri lausn á þeirri krísu sem uppi er.

Þá myndi hún kalla á skjótt og hart viðbragð frá Bandaríkjunum og öðrum ríkjum þeim hliðhollum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert