Fjöldi kórónuveirusmita náði nýjum hæðum í dag í Nýja-Sjálandi þegar 1.160 ný tilfelli greindust. Mun þetta vera mesti fjöldi smita sem greinst hefur á einum degi frá upphafi faraldursins.
Ný-Sjálendingar voru svo gott sem lausir við veiruna í ágúst á síðasta ári. Með tilkomu Ómíkron-afbrigðisins hefur smitum fjölgað mikið og veiran dreift hratt úr sér.
Alls hafa 53 dauðsföll verið af völdum Covid-19 í Nýja-Sjálandi, sem verður að teljast nokkuð lágt hlutfall í þjóð sem telur fimm milljónir manns.
Til að halda útbreiðslu smita í lágmarki hafa stjórnvöld í gegnum faraldurinn gripið til harðra aðgerða, m.a. útgöngubanns, og haldið úti ströngu eftirliti við landamærin. Ekki voru allir á sama máli um nauðsyn þessara aðgerða og hafa mótmæli verið tíð.
Í síðustu viku hindruðu mótmælendur umferð um götur með því að stífla þær bílum, húsbílum og vörubílum. Þar næst komu þeir upp tjaldbúðum við þinghúsið í höfuðborginni Wellington.
Mikil spenna hefur ríkt milli mótmælenda og lögregluyfirvalda síðustu níu daga. Síðasta fimmtudag kom til líkamlegra átaka og voru 122 mótmælendur handteknir. Að öðru leyti hefur ekki verið mikið um átök.
Þolinmæði lögregluþjóna var þó á þrotum komin í gær og lýstu þeir mótmælendum sem óþolandi og átti að nota dráttarbíla við að ryðja göturnar sem voru enn stappaðar. Það tókst þó ekki.
Í kjölfarið reyndi lögreglan að ná tökum á svæði mótmælenda þar sem bifreiðunum var lagt en aftur án árangurs við mikinn fögnuð mótmælenda.