Æfingar rússneska hersins við landamæri Úkraínu er lokið. Hermenn eru á leið heim frá Krímskaga og verða hergögn sömuleiðis flutt á brott samkvæmt yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins.
Í gær tilkynntu Rússar að tvær hersveitir hefðu verið kallaðar frá landamærunum þar sem æfingum þeirra hefðu lokið. Var þetta fyrsta merkið um að Rússar væru að draga úr vígbúnaði við landamæri Úkraínu þar sem innrás hefur verið yfirvofandi síðustu vikur. Talið er að um 150 þúsund rússneskir hermenn hafi haldið sig þar til.
Hörfun rússneska hersins þykja afar góð tíðindi en miklar viðræður hafa staðið yfir milli þjóðarleiðtoga vestrænna ríkja og Vladímírs Pútín forseta Rússlands síðustu daga í von um að hægt verði að afstýra innrás.
Ekki eru þó allir sannfærðir um að yfirlýsingarnar muni koma til með að standast og bíður breska varnarmálaráðuneytið eftir því að Rússar framfylgi þessu.
Þá hefur Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) sagt að Rússar séu að styrkja vígbúnað við landamærin, fremur en draga úr honum, og standist því yfirlýsingin ekki.
„Við höfum heyrt af vilja Moskvu við að halda áfram diplómatískum viðræðum, en hingað til höfum við ekki séð merki um að dregið hafi verið úr vígbúnaði. Þvert á móti virðist sem Rússar hafi haldið áfram að auka vígbúnað,“ sagði Stoltenberg rétt fyrir fund varnarmálaráðherra NATO í morgun.