Sex ára gömul bandarísk stúlka, sem leitað hefur verið að síðan 2019, fannst heil á húfi í leynilegu sérútbúnu herbergi undir stiga í íbúðarhúsi í New York-ríki í Bandaríkjunum í gær.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Eftir að hafa fengið ábendingu um að stúlkunni væri haldið í íbúðarhúsi í bænum Saugerties í Bandaríkjunum framkvæmdu lögreglumenn húsleit. Líffræðilegur afi stúlkunnar tók á móti lögreglumönnunum en að sögn lögreglu sagðist hann ekkert kannast við málið.
Þegar lögreglan hafði staðið að leit í húsinu í um klukkustund kom einn lögregluþjónninn á eitthvað sem þótti athugavert og voru þrep í stiga hússins fjarlægð.
Þar undir var stúlkan, Paislee Shultis, ásamt líffræðilegri móður sinni, Kimberly Cooper.
Paislee Shultis var rænt í júlímánuði árið 2019, þegar hún var aðeins fjögurra ára gömul og lágu líffræðilegir foreldrar hennar fljótlega undir grun. Leitin að henni hafði þó engu skilað fyrr en nú.
Líffræðilegir foreldrar stúlkunnar og afi hennar hafa öll verið handtekin en í yfirlýsingu lögreglu segir að gert sé ráð fyrir að fleiri verði handteknir í tengslum við málið.