Bárður Nielsen, lögmaður Færeyja, hefur vikið Jørgen Niclasen fjármálaráðherra úr ríkisstjórn eftir að greint var frá því að Niclasen hefði verið gómaður við akstur undir áhrifum áfengis í síðustu viku.
Ekki er víst hvort Niclasen haldi þingmennsku áfram en hann er formaður Fólkaflokksins, eins þriggja stjórnarflokka.
Í færeyskum fjölmiðlum kemur fram að Niclasen hafi verið stöðvaður af lögreglu þar sem hann var á leið í bakarí að morgni, að kaupa morgunbrauðið eins og hermt er, en kvöldið áður hafði hann drukkið áfengi.
Ráðherrann sagði að það hafi verið hugsunarleysi að aka af stað í bakaríið og hann sjái eftir því.
Bárður lögmaður tekur tímabundið við embætti fjármálaráðherra á meðan Fólkaflokkurinn ræður ráðum sínum varðandi framhaldið.