Handjárnuðu svarta drenginn en ekki þann hvíta

Skjáskot úr myndskeiðinu. Hér sést hvernig lögregluþjónarnir hafa komið svarta …
Skjáskot úr myndskeiðinu. Hér sést hvernig lögregluþjónarnir hafa komið svarta drengnum í gólfið.

Myndskeið sem sýnir lögregluþjóna stía í sundur tveimur unglingspiltum, öðrum svörtum og hinum hvítum, í slagsmálum í verslunarmiðstöð í New Jersey hefur vakið reiði vegna viðbragða lögregluþjónanna.

Ríkisstjórinn Phil Murphy sagði í gær að myndskeiðið virtist sýna rasíska meðhöndlun og að það væri mjög truflandi. 

Myndskeið af atvikinu sýnir drengina rífast áður en hvíti drengurinn bendir fingri í átt að andliti hins svarta. Þá ýtir svarti drengurinn í hönd hvíta drengsins og hvíti drengurinn ýtir svarta drengnum sem þá kýlir í átt að þeim hvíta.

Svarti drengurinn endar í gólfinu eftir stutt átök og tveir lögregluþjónar, karl og kona, mæta á svæðið og aðskilja drengina. 

„Þetta gerir mig reiða“

Þegar svarti drengurinn ætlar að standa upp ýtir lögreglumaðurinn honum í gólfið og festir hendur hans fyrir aftan bak á meðan lögreglukonan ýtir hvíta drengnum í sófa og fer svo að aðstoða lögreglumanninn við að handjárna svarta drenginn.

Svarti drengurinn heitir Kyle en hann og móðir hans Ebone ræddu við CNN í gær. Ebone sagðist spyrja sig hvort ástæðan fyrir því að sonur hennar hefði verið handjárnaður á meðan hvíti drengurinn fékk að sitja frjáls á sófa væri sú að hann væri svartur.

„Hvað fékk þau til að takast á við son minn en ekki hinn drenginn? Hvað gerði það að verkum að þau voru svo herská í garð sonar míns en ekki hins drengsins? Hvers vegna fékk hinn drengurinn að sitja og horfa á son minn vera niðurlægðan og handjárnaðan? Þetta gengur ekki upp fyrir mér og þetta gerir mig reiða,“ sagði Ebone. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert