Yfirgripsmikil leit að stórum hvítum hákarli stendur nú yfir við sjávarsíðuna í borginni Sydney í Ástralíu eftir að viðkomandi hákarl drap sjósundsmann.
Skepnan er talin vera að minnsta kosti þrír metrar að lengd.
Þrettán baðstöðum var lokað í kjölfar atviksins sem átti sér stað síðdegis í gær. Veiðimenn og golfarar sem staddir voru í grenndinni voru vitni að árásinni sem er sú fyrsta sinnar tegundar í Sydney síðan árið 1963.
Sjúkraþyrla var kölluð út sem og fjórir sjúkrabílar en maðurinn, sem var 35 ára gamall, lést af sárum sem viðbragðsaðilar hafa lýst sem „hræðilegum“.
Samkvæmt íþróttatímaritinu Sports Australia stunda um 4,5 milljónir Ástrala sjósund reglulega og að minnsta kosti hálf milljón þeirra brunar á brimbretti.