Varar við yfirvofandi innrás Rússa

Horft yfir sameiginlegar heræfingar í Hvíta-Rússlandi fyrr í mánuðinum.
Horft yfir sameiginlegar heræfingar í Hvíta-Rússlandi fyrr í mánuðinum. AFP

Stjórnvöld Rússlands færast nær innrás í Úkraínu, sem enn þykir yfirvofandi. Sendifulltrúi Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna varar við þessu en fram undan er fundur Öryggisráðsins um ástandið í heimshlutanum.

Sendifulltrúinn, Linda Thomas-Greenfield, segist hafa beðið utanríkisráðherrann Antony Blinken að vera viðstaddur fundinn, til að sýna einbeittan áhuga Bandaríkjanna á að leysa málið með viðræðum.

Skot og sprengingar heyrðust í austurhluta Úkraínu í morgun en deilt er um hver ber ábyrgð á því.

Örlagastund

„Okkar markmið er að láta í ljós alvarleika ástandsins. Sönnunargögnin á jörðu niðri eru þau að Rússland er að færast nær yfirvofandi innrás. Þetta er örlagastund,“ tísti hún.

Háttsettur bandarískur embættismaður, sem ekki vill láta nafns síns getið, tjáir fréttastofu AFP að svo virðist sem Rússland sé að stigmagna viðbúnað sinn á sama tíma og stjórnvöld þar í landi sögðust vera að draga úr viðbúnaði.

Segir hann atburðarásina líkjast þeirri sem átti sér stað fyrir innrás Rússlands í Georgíu árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert