38 dæmdir til dauða í einu máli

Frá eftirmálum sprengjuárásanna árið 2008.
Frá eftirmálum sprengjuárásanna árið 2008. AFP

Dómstóll á Indlandi hefur dæmt 38 manns til dauða fyrir sprengjuárás í indversku borginni Ahmedabad árið 2008 þegar allt að 20 sprengjum var varpað víða um borgina með þeim afleiðingum að 56 létust og fleiri en 200 særðust.

Sprengjunum var varpað á spítala, verslunarmiðstöðvar og almenningsgarða.

Er þetta í fyrsta sinn sem svo margir hafa hlotið dauðadóm í einu máli á Indlandi. Æðri dómsstóll þarf að staðfesta dóminn áður en refsingunni er framfylgt. 

Þá voru 11 sömuleiðis dæmdir til fangelsisvistar vegna málsins.

Dauðarefsingar eru fremur sjaldgæfar á Indlandi en síðast var dómur um slíka refsingu kveðinn upp árið 2020. Þá voru fjórir sakborningar í nauðgunarmáli sem átti sér stað árið 2012 hengdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert