Fimm ára drengur lést í Afganistan skömmu eftir að björgunarmönnum hafði tekist að draga hann upp úr brunni sem hann hafði verið fastur í í þrjá daga.
Haidar, drengurinn sem lést, hafði fallið á botn brunns í Shokak þorpinu í Zabul héraði, sem liggur um 400 kílómetra suðvestur af höfuðborginni Kabúl. Enn var verið að grafa brunninn þegar að slysið átti sér stað.
Haji Abdul Hadi, afi drengsins, sagði Haidar hafa fallið ofan í brunnin þegar hann var að reyna að aðstoða fullorðna fólkið við að grafa nýa borholu. Miklir þurrkar hafa gengið yfir Afganistan síðustu vikur og mánuði.
„Með mikilli sorg hefur hinn ungi Haidar yfirgefið okkur að eilífu,“ sagði í tísti Anas Haqqani, ráðgjafa innviðaráðherra Talíbana.
Drengurinn hafi fallið 25 metra niður á botn brunnsins en var síðar hífður upp um 15 metra þar til hann festist. Zabiullah Jawhar talsmaður lögreglunnar sagði drenginn hafa verið nær dauða en lífi þegar björgunarmenn komust að honum.
Yfirvöld Talíbana, sem hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir brot á mannréttindum íbúa Afganistan, hafa verið dugleg við að deila nýjustu fregnum af björguninni á samfélagsmiðlum en embættismenn á vegum þeirra stýrðu aðgerðinni.