Fullviss um að Rússar geri innrás

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði fyrr í kvöld að hann teldi …
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði fyrr í kvöld að hann teldi innrás Rússa í Úkraínu vera yfirvofandi. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti er fullviss um að Vladimir Pútín Rússlandsforseti sé búinn að taka ákvörðun um að gera innrás í Úkraínu, og að sú árás muni hefjast á næstu dögum. Frá þessu greindi hann á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld.

Sagði Biden að Bandaríkjamenn teldu að Rússar myndu gera atlögu að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, þar sem 2,8 milljónir saklausra borgara búa. Þá sakaði Biden Rússa um að hafa sett á fót upplýsingaherferð, þar sem reynt væri að skella skuldinni á Úkraínumenn, og að þeir væru að undirbúa árás á aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Væri tilgangur herferðarinnar að búa til tylliástæðu fyrir innrás Rússa. 

„Það eru nákvæmlega engin sönnunargögn til þess að styðja þessar fullyrðingar, og það fer gegn almennri skynsemi að trúa því að Úkraínumenn myndu velja þessa stund, þar sem vel rúmlega 150.000 rússneskir hermenn bíða við landamærin, til þess að ýfa upp áralöng átök,“ sagði Biden. 

Bætti Biden við að allar þær fregnir sem nú bærust frá austurhluta Úkraínu um árásir af hálfu Úkraínumanna væru í samræmi við þær aðferðir sem Rússar hefðu áður beitt til þess að réttlæta árásir á Úkraínu. 

Jafnframt varaði Biden Rússa enn og aftur við hugsanlegum afleiðingum við því að ráðast inn í Úkraínu og sagði það ekki of seint að draga úr spennu og snúa aftur að samningsborðinu.

Munu draga Rússa til ábyrgðar

Biden ráðfærði sig fyrr í kvöld við bandamenn Bandaríkjanna í Atlantshafsbandalaginu „Niðurstaðan er þessi. Bandaríkin, bandamenn okkar og samstarfsaðilar munu styðja úkraínsku þjóðina. Við munum draga Rússa til ábyrgðar fyrir gjörðir þeirra. Vesturlönd eru sameinuð og ákveðin. Við erum tilbúin að beita Rússum ströngum refsiaðgerðum ef þeir ráðast enn frekar inn í Úkraínu,“ sagði Biden.

Þá benti hann á að Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefði samþykkt að funda með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hinn 24. febrúar næstkomandi.

„En ef Rússar grípa til hernaðaraðgerða fyrir þann dag verður ljóst að þeir hafi hafnað því að semja,“ sagði Biden.

„Þeir munu þá hafa valið stríð og þeir munu borga fyrir það. Ekki aðeins með þeim refsiaðgerðum sem við og bandamenn okkar munum beita Rússlandi, heldur með þeim orðsporshnekki sem þeir munu hljóta á heimsvísu.“

Spurður hvort hann væri sannfærður um að Pútín muni fylgja áformum sínum um innrás í Úkraínu svarar Biden játandi.

„Á þessari stundu er ég sannfærður um að hann hafi tekið ákvörðun um það,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert