Breska ríkisstjórnin sakaði í dag rússnesku leyniþjónustuna um aðild að netárás sem gerð var á úkraínskar ríkis- og bankavefsíður á þriðjudaginn síðastliðinn. Stjórnvöld í Moskvu hafa neitað sök.
Stjórnvöld í Kænugarði höfðu áður gefið til kynna að árásin hafi komið frá Rússlandi, þar sem viðvarandi ótti væri um að stjórnvöld í Moskvu ráðist inn í nágrannaríki sitt Úkraínu, að því er fréttaveita AFP greinir frá.
Meðal þeirra fyrirtækja og stofnana sem urðu fyrir áhrifum netárásarinnar voru tvær stærstu fjármálastofnanir landsins, ríkissparisjóðurinn Oschadbank og Privat, og varnarmálaráðuneytið.
Vefsíður bankanna tveggja voru komnar aftur í gagnið fljótlega eftir að netárásin var gerð en vefsíður úkraínska hersins lágu niðri í nokkra klukkutíma eftir árásina.
Samskiptaeftirlit Úkraínu bendir fingri á Moskvu.
„Það er ekki hægt að útiloka að andstæðingurinn sé að grípa til bellibragða,“ sagði netöryggisstjóri Úkraínu og vísaði þar til Rússa.