Milljónum er sagt að halda sig heima nú þegar versti stormur í áratugi gengur á land á suðurhluta Bretlands. Rauð veðurviðvörun er í gildi en hún nær til suður- og austurhluta Englands og Wales.
Rauða viðvörunin tók gildi klukkan sjö í morgun og gildir til þrjú í dag.
Búist er við að vindur nái allt að 45 m/s og þá gæti mikil snjókoma fylgt og jafnvel snjóbylur.
Hundruðum skóla hefur verið lokað á Englandi sem og flestum skólum í Wales. Samgöngur falla víða niður en rauðar veðurviðvaranir tákna hættu á að tré rifni upp með rótum, þök fjúki af húsum og rafmagnslínur slitni.
Fólk hefur verið hvatt til að binda hluti niður fasta sem eru utandyra, loka gluggum og koma bílum inn í bílskúra, sé slíkt mögulegt.
Veðurfræðingar gera ráð fyrir því að óveðrið, sem kallað er Eunice, muni valda tjóni en ómögulegt sé að segja til um nákvæmlega hversu slæmt veðrið verður.
Bent er á að þrátt fyrir að ekki sé um fellibyl að ræða muni vindstyrkur á einhverjum tímapunkti verða svipaður og ef um fellibyl væri að ræða.