Stór sprenging í Luhansk

Þessir rússnesku skriðdrekar voru sagðir á heimleið til Rússlands eftir …
Þessir rússnesku skriðdrekar voru sagðir á heimleið til Rússlands eftir heræfingar í Hvíta-Rússlandi. AFP

Fregnir herma að stór sprenging hafi orðið rétt í þessu í borginni Luhansk, sem er á valdi rússneskra aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. 

Sérfræðingar í varnarmálum á Vesturlöndum hafa sagt að líklegt sé að sett verði á svið atvik í héruðum aðskilnaðarsinna á næstu dögum til þess að búa til tylliástæðu fyrir Rússa til að hefja innrás sína. Áætlað er að þeir hafi nú um 190.000 hermenn við landamærin að Úkraínu, sem er stærsti liðssafnaður í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Rússar hafa þvertekið fyrir að þeir hyggist ráðast inn í Úkraínu, en þeir hafa um leið sakað stjórnvöld í Úkraínu um að hyggja á árás á aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði fyrr í dag að ástandið væri að hríðversna, en hann fundaði með Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, í Kreml um stöðuna í Úkraínudeilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert