Dreift hefur verið á samfélagsmiðlum mynd, sem á að gefa til kynna að árás sem gerð var á leikskóla í Úkraínu í gær hafi verið sviðsett. Það er þó myndin sjálf sem er óekta.
Aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu skutu með fallbyssum á leikskólann sem staðsettur er í bænum Stanytsia Luhanska í gær með þeim afleiðingum að þrír fullorðnir slösuðust. Engin börn slösuðust í sprengingunni, að því er fréttastofa BBC greinir frá.
Eftir árásina fór mynd af leikskólanum í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem mátti sjá gröfu í forgrunni.
Fjöldi fólks dreifði myndinni og mat það svo að árásin hefði verið sviðsett. Fylgdi það sögunni að grafan sem mátti sjá á myndinni hefði verið notuð til að gera gat á hlið leikskólans frekar en að gatið hafi komið til vegna fallbyssukúlu.
Samkvæmt heimildum BBC hefur sá sem birti myndina upprunalega nú viðurkennt að hann hafi átt við hana fyrir birtingu í Photoshop. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að fólk dreifi henni áfram.
Eliot Higgins, stofnandi veffréttamiðilsins Bellingcat, tísti um myndbirtinguna og sagði hana til marks um það hve heimskuleg útbreiðsla falsfrétta getur verið.
„Einhver Twitter-notandi breytir mynd af árásinni sem var gerð á leikskólann, viðurkennir svo fljótlega að hafa átt við hana og nú er fólk að dreifa færslunni eins og myndin sé lögmæt,“ sagði Higgins, sem bætti við að hann ætti jafnvel von á því að sjá rússneska varnarmálaráðuneytið birta hina fölsuðu mynd sem sannleika.
How dumb the spread of disinformation can be; some Twitter rando photoshops a picture from yesterday's nursery shelling, quickly admits it was a photoshop, and now people are sharing it like it's legit. Half expect it to appear in a Russian MoD press conference by this evening. pic.twitter.com/YhL9qmg8eh
— Eliot Higgins (@EliotHiggins) February 18, 2022