Tólf var saknað og tveir sátu fastir eftir að eldur kviknaði í ferjunni Euroferry Olympia á Jónahafi í nótt. Viðbragðsaðilar voru í kappi við tímann við að slökkva eldinn bjarga eftirlifendum fyrir myrkur.
Kafarar voru fengnir til að aðstoða við leitina að þeim sem var saknað, að því er gríska strandgæslan greindi frá í samtali við fréttaveituna AFP, eftir að 287 manns hafði verið bjargað af ferjunni í kjölfar eldsins og þeir fluttir á grísku eyjuna Korfú.
Ferjan hafði verið við strönd Ereikousa-eyjunnar milli Grikklands og Albaníu þegar eldurinn kviknaði og logaði hann enn síðdegis í dag.
Upptök eldsins liggja ekki fyrir á þessari stundu.
Meðal þeirra sem bjargað hefur verið af ferjunni hafa tíu verið fluttir á sjúkrahús með öndunarörðugleika og minniháttar meiðsl.
Leitin af þeim tólf farþegum sem enn er saknað mun þó halda áfram, að því er gríska strandgæslan greinir frá, en níu þeirra eru frá Búlgaríu.
Eftir að tilkynning um eldin barst tók það tólf tíma fyrir sérhæft björgunarteymi frá Grikklandi að komast um borð skipsins.
Staðsetning fimm þeirra tólf farþega sem er saknað hefur verið staðfest og er verið að gera tilraunir til þess að bjarga þeim af ferjunni, að því er eigendur ferjufyrirtækisins Grimaldi Lines greina frá.
Gríska strandgæslan kveðst þó aðeins vita um staðsetningu tveggja farþega um borð, einn þeirra sé frá Búlgaríu og hinn frá Tyrklandi.