Norski athafnamaðurinn Shakhwan Hamah Ameen segir sínar farir ekki sléttar eftir að Héraðsdómur Hjørring á Norður-Jótlandi í Danmörku dæmdi á föstudaginn fyrir viku að nýkeypt bifreið hans af gerðinni Lamborghini Huracán Spyder skyldi gerð upptæk konungsríkinu eftir gróft brot Ameen 7. október í fyrra á hraðbrautinni E39, kafla sem heitir Hirtshalsmotorvejen.
Lenti Ameen, sem rekur bílaþvottastöðina og verkstæðið Stavanger bilpleie og service AS í Stavanger í Noregi, í hraðamælingu og myndatöku lögreglu þar sem hann ók bifreiðinni á 236 kílómetra hraða miðað við klukkustund, en hámarkshraði þar á svæðinu er 130. Að teknu tilliti til skekkjumarka hraðamælingarinnar var ákært og dæmt fyrir 228 kílómetra hraða.
Fékk Ameen aðeins að njóta hraðskreiðs færleiks síns í nokkrar klukkustundir en hann var á leið til baka til Noregs frá Þýskalandi þar sem hann hafði greitt 2,8 milljónir norskra króna, jafnvirði tæpra 39 milljóna íslenskra á gengi dagsins í dag, fyrir fákinn ítalska.
Hlaut þvottastöðvareigandinn dóm samkvæmt nýjum dönskum lögum um óðs manns akstur (d. lov om vanvidskørsel) er gildi tóku 31. mars í fyrra. Er dönskum yfirvöldum eftir bókstaf þeirra heimilt að dæma ökutæki, sem notuð hafa verið við gróf umferðarlagabrot, upptæk ríkinu sem hluta af refsingu eigandans. Má Ameen því sjá á eftir bifreið sinni auk þess sem héraðsdómari taldi 20 daga fangelsi hæfilega refsingu, sviptingu ökuleyfis, þó ekki réttarins til að aka léttu bifhjóli, og bann við að stíga fæti á danska jörð í sex ár.
Neitar Ameen sakargiftum, hyggst áfrýja dómi sínum auk þess að bera lögmæti eignaupptökuákvæðisins undir Evrópudómstólinn. Segir hann lögreglu hafa fest allt annan Lamborghini á myndskeið en þann sem hann ók og segir í viðtali við vefmiðilinn Nordjyske að eignaupptakan sé ekkert annað en þjófnaður.
„Myndskeiðið úr lögreglubifreiðinni, sem sýnt var í réttinum, sýnir að ég ók á um það bil 140 til 150 kílómetra hraða. Þetta er ekki mín bifreið sem lögregla mældi á 236 kílómetra hraða,“ segir Ameen við Nordjyske og boðar áfrýjun til danska millidómstigsins landsréttar.