Eitt fallbyssuskot geti þýtt stríð

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði öryggisráðstefnuna í München í dag.
Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði öryggisráðstefnuna í München í dag. AFP

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, sagði í dag að land sitt hefði verið „skjöldur“ fyrir Evrópu í átta ár. Fordæmdi Zelenskí tilraunir til þess að friðþægja Rússa, og hvatti til þess að ríki Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins væru heiðarleg gagnvart Úkraínumönnum.

Zelenskí ávarpaði í dag öryggisráðstefnuna í München, en vangaveltur voru í gær hvort að hann myndi fara til Þýskalands vegna innrásarógnarinnar sem nú stafar frá Rússum. Var gerður góður rómur að ræðu hans, en Zelenskí krafðist þar meðal annars að Atlantshafsbandalagið veitti „skýran tímaramma“ um hvenær Úkraína gæti gengið í bandalagið.

„Hefur heimurinn gleymt algjörlega mistökum 20. aldarinnar? Hvert leiðir friðþægingarstefnan venjulegast?“ spurði Zelenskí. Sagði hann jafnframt að öryggisumhverfi það sem ríkti í heiminum væri brothætt og úrelt og að gömlu reglurnar virkuðu ekki lengur. 

Þá spurði Zelenskí hvers vegna Evrópusambandið forðaðist að svara því hvenær Úkraína gæti gerst aðildarríki þess. „Á Úkraína ekki skilið bein og heiðarleg svör?“ spurði Zelenskí. 

„Það sama á við um NATO. Okkur er sagt að hurðin sé opin. En á þessari stundu er engum utanaðkomandi hleypt inn,“ sagði Zelenskí. Hann bætti við að ef sum eða öll aðildarríki bandalagsins vildu ekki fá Úkraínu til liðs við sig, að þá ættu þau að vera heiðarleg með það. 

Hvatti til að upplýsa um aðgerðirnar

Zelenskí ræddi við Christiane Amanpour hjá CNN í München í dag, og sagði við hana að hann teldi að vesturveldin ættu ljóstra upp um hvaða refsiaðgerðir gegn Rússum þau hefðu í hyggju að setja á þegar í stað, frekar en að bíða þar til innrásin væri hafin. Sagðist hann telja að fælingarmáttur aðgerðanna yrði minni þegar Rússar væru farnir af stað með innrás. 

Úkraínskir hermenn í varðstöðu.
Úkraínskir hermenn í varðstöðu. AFP

Aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins skutu fyrr í dag með fallbyssum á stjórnarher Úkraínu og féllu tveir hermenn. Þá hafa rússneskir fjölmiðlar greint frá sprengingum og árásum stjórnarhersins, þar á meðal á rússneskt landsvæði, en stjórnvöld í Úkraínu hafa hafnað þeim ásökunum alfarið. Vestrænir sérfræðingar í varnar- og öryggismálum hafa varað við því að Rússar séu nú að reyna að búa til tylliástæðu fyrir innrás. 

Zelenskí sagði við Amanpour að það væri fáránlegt að halda því fram að Úkraínuher væri að undirbúa árásir á aðskilnaðarsinna. „Eitt fallbyssuskot getur þýtt stríð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert