Neyðarástand í Rússlandi vegna fólks á flótta

Tímabundnar búðir sem búið er að koma upp við landamæri …
Tímabundnar búðir sem búið er að koma upp við landamæri Rússlands og Úkraínu. AFP

Hérað í Rússlandi hefur lýst yfir neyðarástandi vegna fjölda fólks sem leggur nú leið sína þangað frá Úkraínu vegna yfirvofandi stríðsátaka.

„Í ljósi vaxandi fjölda fólks sem er að koma, teljum við viðeigandi að lýsa yfir neyðarástandi,“ sagði Vasily Golubev ríkisstjóri Rostov-héraðs.

Íbúar héraðanna Donetsk og Lugansk, sem eru undir stjórn aðskilnaðarsinna í Úkraínu, forðuðu margir sér yfir til Rússlands í kjölfar þess að tilmæli bárust frá yfirvöldum í gær um að yfirgefa svæðið og var þeim beint yfir landamærin.  

Fyrr í dag sendu leiðtogar úkraínsku héraðanna út allsherjar herkvaðningu og voru íbúar hvattir til að mæta á herkvaðningarskrifstofu landsins.

Umfangsmiklar aðgerðir eru nú í gangi í Rússlandi sem miða að því að taka á móti fólki frá Úkraínu. Koma um 400 manns að aðgerðinni og 150 farartæki. Vladímír Pútín forseti Rússlands gaf út þá tilskipun í gær að flóttafólk myndi fá 10 þúsund rúblur, sem nemur um 100 evrum.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum Donetsk hafa hátt í sjö þúsund manns forðað sér burt úr héraðinu. Þá hafa um 25 þúsund íbúar yfirgefið Lugansk-héraðið á eigin spýtur og búa yfirvöld sig undir að flytja 10 þúsund til viðbótar af svæðinu.

Fjöldi fólks leggur nú leið sína frá Úkraínu yfir til …
Fjöldi fólks leggur nú leið sína frá Úkraínu yfir til Rússlands vegna yfirvofandi stríðsátaka. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert