Rússar æfa viðbrögð við árás

Rússneski kjarnorkukafbáturinn Yuri Dolgorukiy, K-535, er af Borei-byggingarlaginu og getur …
Rússneski kjarnorkukafbáturinn Yuri Dolgorukiy, K-535, er af Borei-byggingarlaginu og getur borið 16 kjarnaflaugar sem hver um sig getur borið allt að tíu kjarnaodda. Ljósmynd/Rússneska varnarmálaráðuneytið/Mil.ru

Rússar hófu í morgun heræfinguna GORM 2022 úti fyrir ströndum nyrsta fylkis Noregs, Finnmark, en frá þessu greindu rússneskir fjölmiðlar í dag í kjölfar tilkynningar til þeirra frá Kreml. Áður höfðu rússnesk stjórnvöld sent frá sér tilkynningu um að æfingin stæði fyrir dyrum.

Að sögn Reuters-fréttastofunnar hafa rússneskir kafbátar og orrustuskip skotið flaugum, sem borið geta kjarnavopn, á skotmörk á sjó og landi, en meðal þess sem Rússar æfa eru viðbrögð við kjarnorkuárás frá kafbátum á Kyrrahafi og telur Ståle Ulriksen, rannsakandi og kennari við norska sjóherskólann, að í GORM 2022-æfingunni felist í senn ódulin skilaboð til stjórnvalda í Bandaríkjunum og Noregi.

Skilaboðin til Bandaríkjanna séu að enginn hörgull sé á kjarnavopnum í vopnabúri Pútíns og herstyrkurinn við úkraínsku landamærin, sem augu heimsins hvíla nú á, sé aðeins brot af því afli sem Rússar geti beitt ef í harðbakkann slær. Að Noregi beinist hins vegar að mati Ulriksen svar við væntanlegri heræfingu Atlantshafsbandalagsins, Cold Response, en hún er á dagskrá í og við Noreg í mars og apríl.

Æfingin mikil ögrun

„Þessar æfingar [Rússa] eru yfirleitt á haustin og tímasetningin núna er að mínu viti boðskapur í tengslum við Úkraínu, Rússar eru að minna heiminn á að þeir eigi kjarnavopn og geti beitt þeim,“ segir Ulriksen við norska dagblaðið VG, en rússnesku kjarnorkukafbátarnir, svo sem Yuri Dolgorukiy, sem tekur þátt í GORM 2022, geta borið 16 burðarflaugar hver og getur hver flaug borið allt að tíu kjarnaodda.

„Ég tel æfinguna nú mikla ögrun,“ segir Ulriksen enn fremur, en hluti æfingarinnar fer fram innan efnahagslögsögu Noregs auk þess sem æfingaskotflaugar Rússa hæfa nú skotmörk mun nær Noregi en áður hefur tíðkast.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti setti æfinguna formlega, að sögn Interfax-fréttastofunnar rússnesku, og fylgdist með fyrstu aðgerðunum frá stjórnstöð hennar í Kreml. Að sögn vefmiðilsins The Barents Observer er æfingasvæðið, sem Rússar afmörkuðu í tilkynningu sinni, það stærsta síðan á dögum kalda stríðsins.

Støre ræddi Úkraínumál í Helgemorgen

Norski herinn fylgist grannt með öllum aðgerðum Rússa, en að sögn Ivars Moen undirofursta er það ekki vaninn að herinn tjái sig við fjölmiðla um æfingar herja annarra ríkja.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, sagði í morgunfréttaþættinum Helgemorgen í norska ríkisútvarpinu NRK í morgun að vitanlega fylgdust norsk stjórnvöld með heræfingum Rússa. Að þeim frátöldum hefði ekki orðið vart við sérstakar aðgerðir Rússahers nálægt norsku landsvæði, en ráðherra ræddi við þáttastjórnendur um eldfimt ástandið við úkraínsku landamærin um þessar mundir.

NRK

VG

Reuters

The Barents Observer

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert