Smitgát eða slægð?

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Olaf Scholz, kanslari Þýskalands við …
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Olaf Scholz, kanslari Þýskalands við hvíta langborðið í Kreml. AFP

Stríðsblikur voru á lofti í Evrópu. Bandamenn héldu fram að Rússar myndu ráðast inn í Úkraínu á miðvikudag, en ekkert varð úr. Tilkynnt var að hersveitir hefðu verið kallaðar heim, en ekkert benti til að þær hefðu horfið á braut. Rússar hæddust að yfirlýsingum úr vestri og sögðu að um falsfréttir væri að ræða og í vestri var haldið fram að yfirlýsingar Rússa væru marklausar. Skiptust á hótanir og yfirlýsingar, sem gerðu lítið annað en að rugla fólk í ríminu og Pútín hélt áfram að taka á móti þjóðarleiðtogum við hvíta langborðið.

 Á þriðjudag var Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, gestur Pútíns og sat gegnt honum við hvíta langborðið, sem reglulega hefur birst á fréttamyndum undanfarið. Borðið vakti fyrst athygli þegar Pútín tók á móti Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og var þá haft á orði að bilið á milli þeirra endurspeglaði gjána á milli austurs og vesturs í deilunni um Úkraínu.

Pútín ræðir við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í öruggri fjarlægð …
Pútín ræðir við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í öruggri fjarlægð við hvíta langborðið. AFP


Langborðið hefur vakið vangaveltur um það hvort Pútín sé að reyna að slá viðmælendur sína út af laginu með því að setja þá í óvenjulegar aðstæður. Í fréttum kom hins vegar fram að hvorki Þýskalandskanslari, né Frakklandsforseti hefðu viljað fara í kórónuveirupróf þar sem þeir vildu ekki að Rússar hefðu lífsýni úr þeim í sínum fórum. Þess vegna hefði verið setið við langborðið.

Borðið hafði þó sést áður, fyrst þegar Pútín tók á móti Ebrahim Raisi, forseta Írans, í Kreml 19. janúar og nokkrum dögum síðar þegar Viktor Orban, leiðtogi Ungverjalands, heimsótti hann.

Þegar Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, heimsótti Pútín í Kreml á …
Þegar Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, heimsótti Pútín í Kreml á föstudag var nándin öllu meiri. Borðið á milli þeirra var á stærð við huggulegt náttborð. AFP


Langborðið minnir á atriði úr myndinni Einræðisherranum eftir Charlie Chaplin. Þar tekur einræðisherrann Hynkel, sem Chaplin leikur og á að vera Adolf Hitler, á móti öðrum einræðisherra, Napolitano, sem svipar mjög til Benitos Mussolinis og gerir allt sem hann getur til að upphefja sig á kostnað gestsins.

Einnig hefur verið rifjað upp að fyrir einum og hálfum áratug kallaði Pútín inn vígalega svarta hunda þegar hann sat á fundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Merkel varð greinilega ekki um sel og var vitað að henni stóð stuggur af hundum eftir atvik, sem hún lenti í á yngri árum. Pútín kvaðst hins vegar síðar ekki hafa ætlað að hræða Merkel.

Hvað sem því líður eru fundamyndirnar sér á parti. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert