Varar við upplýsingaóreiðu Rússa

Stjórnarhermenn í skotgröfum í austurhluta Úkraínu.
Stjórnarhermenn í skotgröfum í austurhluta Úkraínu. AFP

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins sagði í kvöld að sambandið hefði þungar áhyggjur af því að atburðir yrðu settir á svið í Úkraínu, sem nýttir yrðu til að réttlæta innrás Rússa.

Í sérstakri yfirlýsingu sem ESB sendi frá sér í kvöld sagði Borrell að sambandið hefði séð aukna upplýsingaóreiðu, sem væri ætlað að styðja við slíkt. Fjölmiðlar í Rússlandi hafa birt í dag fregnir af því að Úkraínumenn hafi skotið eldflaugum á rússneskt landsvæði, sem og að stjórnarher Úkraínu hyggi brátt á árás á aðskilnaðarsinna. 

„ESB sér engan grundvöll fyrir ásökunum sem koma frá héruðum aðskilnaðarsinna í Donetsk og Luhansk um mögulega árás Úkraínumanna,“ sagði Borrell í yfirlýsingunni. 

Þá sagði Borrell að ESB styddi eftirlitsmenn Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í störfum sínum í Úkraínu, en stofnunin tilkynnti fyrr í dag, að hún hefði orðið vör við rúmlega 1.500 brot á vopnahléssamkomulaginu frá Minsk á undanförnum sólarhring.

Er það hið mesta á þessu ári, en aðskilnaðarsinnar hafa skotið ítrekað með fallbyssum á þorp og bæi við víglínuna undanfarna daga, í þeirri von að þeir geti egnt stjórnarherinn til átaka.

Hrósaði Borrell því hvernig Úkraínumenn hefðu svarað ítrekuðum ögrunum aðskilnaðarsinna af stillingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert