Utanríkisráðuneyti Þýskalands biður þýska ríkisborgara í Úkraínu um að yfirgefa landið núna, en óttast er að Rússar ráðist inn í nágrannaríki sitt á næstu dögum.
Í gærkvöldi sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti að hann væri fullviss um að Vladimir Pútín Rússlandsforseti væri búinn að taka ákvörðun um að gera innrás í Úkraínu.
Þýska flugfélagið Lufthansa sagði einnig að það myndi hætta reglulegu flugi til borganna Kyiv og Odessa frá og með mánudeginum og til lok febrúar.
Flugfélagið mun bjóða upp á takmarkaðan fjölda flugferða til borganna tveggja núna um helgina áður en gert verður hlé á þjónustunni.