Bjóða óbólusetta ferðamenn velkomna

Með nýjum reglum, sem taka gildi 1. mars nk., munu …
Með nýjum reglum, sem taka gildi 1. mars nk., munu óbólusettir ferðamenn fá inngöngu inn í Ísrael. AFP

Óbólusettum ferðamönnum verður hleypt inn í Ísrael í fyrsta skiptið frá upphafi kórónuveirufaraldursins frá og með 1. mars næstkomandi, að því er Naftali Bennet, forsætisráðherra landsins, greindi frá í dag.

„Við erum að sjá stöðuga fækkun á Covid-19 tilfellum,“ sagði Bennett.

Ísraelar lokuðu landamærum sínum fyrir ferðamönnum í upphafi faraldursins, snemma árs 2020.

„Það er kominn tími til að opna smám saman allt það sem við vorum fyrst til að loka,“ sagði forsætisráðherrann.

Ísraelar voru einnig frumkvöðlar þegar kemur að útbreiddri bólusetningu gegn veirunni á landsvísu og var meðal fyrstu ríkjanna sem kröfðust þess að fólk sýndi fram á bólusetningarvottorð, eða svokallaðan grænan passa, áður en það færi inn á almenningsstaði.

Samkvæmt nýjum reglum, sem taka gildi 1. mars nk., þurfa ferðamenn að fara í PCR-próf áður en þeir fara um borð í flug til Ísrael og svo aftur við lendingu, að því er fréttaveita AFP greinir frá.

Ísraelskir ríkisborgarar þurfa aðeins að taka prófið við komuna til landsins.

Þá var krafan um framvísun bólusetningarvottorðs, e. græna passans, felld úr gildi síðastliðinn fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert