Fyrsta Victoria's Secret fyrirsætan með Downs-heilkenni

Nærri 1.400 Victoria's Secret verslanir er að finna víðsvegar um …
Nærri 1.400 Victoria's Secret verslanir er að finna víðsvegar um heiminn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Sofía Jirau skráði sig í sögubækurnar sem fyrsta Victoria's Secret fyrirsætan sem er með Downs-heilkenni, er hún gekk til liðs við sautján aðrar konur í nýrri herferð vörumerkisins.

Langþráður draumur sem rættist loksins

Hin 24 ára gamla fyrirsæta, sem er frá Púertó Ríkó, fagnaði áfanganum á valentínusardaginn, 14. febrúar sl., eftir frumsýningu Love Cloud nærfatalínu Victoria's Secret.

„Einn daginn dreymdi mig um það, ég vann að því og í dag rættist þessi draumur. Ég get loksins sagt ykkur frá stóra leyndarmálinu mínu,“ skrifaði Jirau í færslu á Instagram. „Ég er fyrsta Victoria's Secret fyrirsætan sem er með Downs-heilkenni!“.

Jirau er einnig önnur fyrirsætan frá Púertó Ríkó til að koma fram í herferð Victoria's Secret og deilir þannig sviðsljósinu með ofurfyrirsætunni Joan Smalls.

View this post on Instagram

A post shared by Sofía Jirau (@sofiajirau)

Fyrirsæta sem lætur engan og ekkert stoppa sig

Sjarmi og smitandi persónuleiki Jirau hefur fleytt henni langt síðan hún hóf fyrirsætuferil sinn í Púertó Ríkó, árið 2019, en sama ár opnaði hún einnig sína eigin netverslunina „Alavett“. Nafnið á versluninni er borið fram eins og „I love it“, eða „Ég elska það“, sem er uppáhalds frasi Jirau, að hennar eigin sögn.

Ári síðar rættist draumur Jirau svo um að fá að taka þátt í tískuvikunni í New York.

Þá ýtti hún einnig herferðinni „No limits“ úr vör til þess að sýna fram á getu fólks með Downs-heilkenni til þess að ná markmiðum sínum og uppfylla drauma sína.

„Takk Victoria's Secret fyrir að sjá mig sem fyrirsætu án takmarkana og fyrir að leyfa mér að vera hluti af Love Cloud herferðinni,“ skrifar Jirau á Instagram. 

View this post on Instagram

A post shared by Sofía Jirau (@sofiajirau)

Vilja að vörur fyrirtækisins höfði til allra kvenna

Hún gengur til liðs við undirfatarisann á mikilvægum tíma þar sem fyrirtækið reynir nú að markaðsetja vörur sínar á þann hátt að þær höfði til allra kvenna.

Áður en Love Cloud undirfatalínan var sett í sölu á fimmtudaginn sl., deildi Jirau myndbandi úr herferðinni. Í myndbandinu sést Jirau í bleikum brjóstarhaldara úr línunni, sem er í uppáhalds litnum hennar, bleikum.

„Ég elska hann, ég elska hann. Victoria's Secret, ég elska hann,“ segir Jirau á móðurtungumáli sínu, spænsku, í myndbandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert