Fyrstu ferðamennirnir eru væntanlegir til Ástralíu í dag, eftir tæplega tveggja ára lokanir á landamærunum.
Forsætisráðherra Ástralíu segir að fimmtíu og sex flugvélar séu væntanlegar á næsta sólarhringnum. Þar af mun drjúgur helmingur þeirra lenda á flugvellinum í Sidney.
Ráðherrann fagnar þessum tímamótum en forsvarsmenn ferðamannaiðnaðarins þar í landi eru hóflega bjartsýnir á fyrstu mánuði afléttinganna.
Það muni taka tíma fyrir ferðamannaiðnaðinn að komast aftur á skrið og ná sömu hæðum og fyrir faraldurinn. Sérstaklega í ljósi þess að fyrir vestrænan markað er Ástralía áfangastaður sem fólk skipuleggur ferðir til með fyrirvara og til lengri dvalar.
Öðru gegnir um þá sem ferðast frá Kína, Japan eða Nýja-Sjálandi, en þar eru víða enn takmarkanir sem hafa áhrif á ferðir fólks.
Þrátt fyrir þessar fimmtíu og sex flugvélar, eru ekki jafn miklar aukningar í bókunum og ætla mætti. Það skýrist af því að fyrstu ferðamennirnir eru margir á leið í heimsókn til vina eða ættingja sem þeir hafa ekki getað hitt í að verða tvö ár vegna heimsfaraldursins.
Áströlsk ferðaþjónustufyrirtæki búast því við að bókanir fari að taka við sér við lok árs. Þetta kemur fram í frétt The Guardian.