Nærri 75% hersveita Rússa í árásarstöðu

Nærri 75% hersveita Rússa í grennd við Úkraínu er nú …
Nærri 75% hersveita Rússa í grennd við Úkraínu er nú í árásarstöðu, samkvæmt nýjasta mati bandarísku leyniþjónustunnar. AFP

Nærri 75% hersveita Rússa í grennd við Úkraínu eru nú í árásarstöðu, samkvæmt nýjasta mati bandarískra leyniþjónustustofnana.

Frá þessu greindi einn embættismanna Bandaríkjanna, sem þekkir vel til leyniþjónustunnar, í samtali við fréttastofu CNN.

Bendi til þess að Rússar ætli sér að gera innrás

Haft er eftir embættismanninum að svona stórt samansafn hersveita, steinsnar frá Úkraínu, sé afar óvenjulegt og hluti af ástæðunni fyrir því að Bandaríkin telji Rússa tilbúna að gera innrás inn í landið.

Þannig séu um 120 af áætluðum 160 herfylkjum Rússa staðsett í innan við 60 kílómetra fjarlægð frá Úkraínu, að sögn embættismannsins. Þótt það séu um 75% af helstu bardagasveitum Rússa innihalda þær minna en helming allra hermanna rússneska hersins.

Samanlagt gætu rússneskir hermenn og aðskilnaðarsinnar, sem staðsettir eru í og við Úkraínu, verið allt að 190.000 talsins, að því er bandarískir embættismenn hafa greint frá.

Þá hafa 35 af 50 þekktum loftvarnarherfylkjum Rússa verið sendar til Úkraínu. Að auki áætla Bandaríkin að um 500 rússneskar orrustu- og sprengjuflugvélar séu innan seilingar frá Úkraínu.

Breska varnarmálaráðuneytið tísti því á fimmtudag að meira en helmingur rússneskra hersveita væri staðsettur nærri landamærum Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert