Kyrrð ríkir í Ottawa, höfuðborg Kanada, í fyrsta skipti eftir tæpan mánuð af linnulausum mótmælum vörubílstjóra gegn sóttvarnaaðgerðum og bólusetningarkröfum.
Umfangsmiklar lögregluaðgerðir hafa staðið yfir í tvo sólarhringa, en síðustu vörubílarnir voru dregnir í burtu í kvöld.
Borgarbúi að nafni Jeff Lindley, segist í samtali við AFP, feginn því að mótmælendurnir séu farnir og borgin sé orðin friðsæl á ný.
Lítill hópur mótmælenda hélt vöku fyrir íbúum fram eftir nóttu með því að syngja mótmælasöngva frá áttunda áratugnum og skjóta upp flugeldum við öryggishliðið sem umlykur þinghúsið í Ottawa.
Snemma í morgun var borgin aftur á móti yfirfull af lögreglumönnum og varð það til þess að síðustu mótmælendurnir hrökkluðust burt. Var þetta í fyrsta skipti síðan mótmælin byrjuðu, sem borgargbúar vöknuðu ekki upp við bílflaut, hróp og köll.
Búið er að handtaka 191 mótmælanda frá því að lögregluaðgerðir hófust á föstudag.
Þá hafa 57 bifreiðir verið dregnar í burtu, en samgöngur borgarinnar höfðu verið í lamasessi frá 29. janúar.
Kanada hefur verið að aflétta aðgerðum smám saman, líkt og flest önnur vestræn ríki, í takt við fækkun á innlögnum og Covid-smitum. Mótmælendurnir vilja þó sjá fullkomnar afléttingar og segjast ætla að halda áfram baráttu sinni þó mótmælunum í Ottawa sé hér með lokið.
Ríkisstjórn Kanada á yfir sér málsókn sem stafar frá aðgerðarhóp sem berst fyrir borgaralegu frelsi, auk þess sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þá ákvörðun að gripið hafi verið til neyðarúrræðis sem heimilar valdbeitingu til að stöðva mótmæli.