Skipað fyrir um allsherjar innrás

Rússneski einræðisherrann fylgdist með upphafi heræfinga úti fyrir ströndum Noregs …
Rússneski einræðisherrann fylgdist með upphafi heræfinga úti fyrir ströndum Noregs í gær. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur skipað undirmönnum sínum fyrir um allsherjar innrás í Úkraínu.

Vitneskja um þessa fyrirskipun lá að baki fullyrðingu Joe Bidens Bandaríkjaforseta á föstudagskvöld, þar sem hann sagðist fullviss um að Pútín væri búinn að taka ákvörðun um innrás.

Þetta hefur dagblaðið Washington Post eftir nokkrum heimildarmönnum sínum innan bandaríska stjórnkerfisins, en þeir krefjast nafnleyndar sökum viðkvæms eðlis málsins.

Fengust nýlega

Heimildir blaðsins herma að Bandaríkin hafi komist yfir upplýsingar um fyrirskipunina eftir að rússneski herinn og embættismenn hófu að taka ákveðin skref til að framfylgja henni.

Upplýsingarnar munu hafa fengist mjög nýlega.

Yfirlýsing Bandaríkjaforseta „endurspeglar mat leyniþjónustanna“, tjáir háttsettur embættismaður blaðinu. Bendir hann á að Biden hafi þó einnig tekið fram að enn stæðu dyr opnar, að frekari viðræðum.

Frá heræfingu í Úkraínu á föstudag.
Frá heræfingu í Úkraínu á föstudag. AFP

Macron hringir í Pútín í dag

Emmanuel Macron Frakklandsforseti mun hringja í Pútín í dag og reyna með einhverjum hætti að afstýra þeirri innrás sem þykir vofa yfir Úkraínu.

Fjöldi borgara hefur flúið átakasvæðin í austurhluta Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði sögðu í gær að tveir hermenn þeirra hefðu látist þar í árás. Um er að ræða fyrstu dauðsföllin í átökunum í rúman mánuð. 

Stjórnvöld í Kreml halda því statt og stöðugt fram að engin áform séu uppi um innrás.

Heræfingar þeirra, liðssöfnun á landamærunum og herkvaðning aðskilnaðarsinna hafa þó lítið gert til að renna stoðum undir þann málatilbúnað.

„Allt bendir til þess að Rússland leggi á ráðin um fulla árás gegn Úkraínu,“ sagði Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins í gær.

Rússneskir fallhlífahermenn æfðu aðgerðir í Hvíta-Rússlandi í gær.
Rússneskir fallhlífahermenn æfðu aðgerðir í Hvíta-Rússlandi í gær. AFP

Rússar stefni á Kænugarð

Bandaríkjaforseti sagðist í ávarpi sínu á föstudag telja að Rússar muni gera atlögu að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, þar sem 2,8 milljónir saklausra borgara búa.

Þá sakaði hann Rússa um að hafa sett á fót áróðursherferð, þar sem reynt sé að skella skuldinni á Úkraínumenn og láta sem svo að þeir búi sig undir árás á aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Tilgangur herferðarinnar sé sá að búa til tylliástæðu fyrir innrás Rússa.

„Það eru nákvæmlega engin sönnunargögn til þess að styðja þessar fullyrðingar, og það fer gegn almennri skynsemi að trúa því að Úkraínumenn myndu velja þessa stund, þar sem vel rúmlega 150.000 rússneskir hermenn bíða við landamærin, til þess að ýfa upp áralöng átök,“ sagði Biden. 

Bætti hann við að allar þær fregnir sem nú bærust frá austurhluta Úkraínu um árásir af hálfu Úkraínumanna væru í samræmi við þær aðferðir sem Rússar hefðu áður beitt til þess að réttlæta árásir á Úkraínu. 

Zelenskí sagði að svo liti út fyrir að dyr NATO …
Zelenskí sagði að svo liti út fyrir að dyr NATO stæðu lokaðar. AFP

Krafðist svara frá NATO og ESB

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði síðdegis í gær öryggisráðstefnuna í München.

Zelenskí krafðist þar meðal annars að Atlantshafsbandalagið veitti „skýran tímaramma“ um hvenær Úkraína gæti gengið í bandalagið.

Þá spurði Zelenskí hvers vegna Evrópusambandið forðaðist að svara því hvenær Úkraína gæti gerst aðildarríki þess. „Á Úkraína ekki skilið bein og heiðarleg svör?“ spurði Zelenskí. 

„Það sama á við um NATO. Okkur er sagt að hurðin sé opin. En á þessari stundu er engum utanaðkomandi hleypt inn,“ sagði Zelenskí. Hann bætti við að ef sum eða öll aðildarríki bandalagsins vildu ekki fá Úkraínu til liðs við sig, þá ættu þau að vera heiðarleg með það.

Almennir borgarar æfa sig með eftirlíkingar af Kalasníkov-rifflum fyrir utan …
Almennir borgarar æfa sig með eftirlíkingar af Kalasníkov-rifflum fyrir utan Kænugarð í gær. AFP

Sýna klærnar í Norðri

Rússar hófu í gærmorgun heræfingu úti fyrir ströndum nyrsta fylkis Noregs. Rússneskir kafbátar og orrustuskip hafa þar skotið flaugum, sem borið geta kjarnavopn, á skotmörk á sjó og landi, en meðal þess sem Rússar æfa eru viðbrögð við kjarnorkuárás frá kafbátum á Kyrrahafi.

Í æfingunni eru talin felast í senn ódulin skilaboð til stjórnvalda í Bandaríkjunum og Noregi.

Skilaboðin til Bandaríkjanna séu að enginn hörgull sé á kjarnavopnum í vopnabúri Pútíns og herstyrkurinn við úkraínsku landamærin, sem augu heimsins hvíla nú á, sé aðeins brot af því afli sem Rússar geti beitt ef í harðbakkann slær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert