Vetrarólympíuleikunum, sem haldnir voru í Peking í Kína, lauk formlega í dag og var mikið um dýrðir af því tilefni á ólympíuleikvanginum í borginni.
Nærri þrjú þúsund íþróttamenn kepptu í 109 keppnum, í 15 mismunandi greinum, síðastliðnar tvær vikur.
Tomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, tók til orða á lokahátíðinni og kallaði eftir því að stjórnarleiðtogar heimsins tækju þá „samstöðu“ og „friðsemd“, sem Ólympífararnir hafi sýnt, sér til fyrirmyndar, að því er fréttastofa BBC greinir frá.
„Sameiningarkraftur Ólympíuleikanna er sterkari en öflin sem vilja sundra okkur,“ sagði hann.
Þá sagði hann Ólympíufarana hafa „gefið friðinum tækifæri“.
„Hvert og eitt ykkar kappkostaði við að gera ykkar allra besta. Við erum djúpt snortin yfir því hve vel þið komuð fram við keppinauta ykkar með því að óska þeim velgengni og hvetja þá áfram.“
„Þið báruð ekki aðeins virðingu fyrir hvort öðru heldur umvöfðuð þið hvort annað, jafnvel þó löndin sem þið komið frá séu sundruð vegna átaka.“
Bach hvatti önnur lönd einnig til að halda bólusetningum gegn Covid-19 áfram og sagði: „Ef við viljum loksins sigrast á þessum heimsfaraldri verðum við að vinna hraðar.“
„Við verðum að stefna hærra, vera sterkari og standa saman. Það að fólk velji að láta bólusetja sig sýnir að það sé að hugsa um aðra.“
„Í anda þeirrar samstöðu sem Ólympíufarar hafa sýnt síðastliðnar tvær vikur skorum við á alþjóðasamfélagið að veita fólki um allan heim greitt aðgengi að bóluefnum.“
Norðmenn yfirgefa Peking með 37 verðlaun, þar af 16 gullverðlaun, 8 silfur og 13 brons.
Marte Olsbu Røiseland, sem keppti fyrir hönd Noregs í skíðaskotfimi á Ólympíuleikunum í ár, var meðal fánabera á lokahátíðinni, en hún yfirgefur leikana með þrjú gullverðlaun og tvö brons.
Slökkt hefur verið á Ólympíueldinum en næstu leikar fara fram í Mílanó og Cortina d'Ampezzo á Ítalíu árið 2026. Vetrarólympíuleikar fatlaðra hefjast í Peking 4. mars næstkomandi.