Joe Biden Bandaríkjaforseti tjáði úkraínska forsetanum Volodymyr Zelenskí að Bandaríkin stæðu með lagalegri friðhelgi yfirráðasvæðis landsins, í símtali í kvöld eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi sjálfstæði tveggja svæða innan landamæra Úkraínu.
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að Biden hafi ítrekað skuldbindingu Bandaríkjanna gagnvart fullveldi og friðhelgi yfirráðasvæðis Úkraínu.
Þá mun Biden einnig hafa upplýst Zelenskí um svar Bandaríkjanna við ákvörðun Pútíns, þar á meðal viðskiptaþvinganir.
Ítrekaði forsetinn að Bandaríkin myndu svara á afgerandi og skjótan hátt, ásamt bandamönnum sínum, til að koma í veg fyrir frekari árásir Rússa gegn Úkraínu.