Friðsamleg lausn að renna úr greipum manna

Frá æfingu almennra borgara í Kænugarði í gær. Farið var …
Frá æfingu almennra borgara í Kænugarði í gær. Farið var yfir beitingu skotvopna og fyrstu hjálp. AFP

Upplýsingar sem leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa komist yfir gefa til kynna að í hvers konar rússneskri innrás í Úkraínu myndi her Rússlands beita sérstaklega hrottalegum aðferðum til að merja undir sig almenna borgara í landinu.

Þetta sagði þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, Jake Sullivan, í samtali við fréttastofu NBC í dag.  

Varaði hann einnig við því að vonir um friðsamlega lausn væru að renna úr greipum manna.

Pútín sagði fyrr í dag að eng­ar horf­ur væru á því að hægt verði að leysa deil­una með friðarsamn­ing­un­um sem samþykkt­ir voru árið 2015.

Úkraínskir hermenn í sjoppu í bænum Avdiivka fyrr í dag, …
Úkraínskir hermenn í sjoppu í bænum Avdiivka fyrr í dag, nærri víglínunni í austurhluta landsins. AFP

Yrði ofsafengin aðgerð

Benti hann á að rússneskt herlið haldi áfram að safnast saman við landamæri Úkraínu, sífellt meiri átök brjótist út í austurhluta landsins og aðskilnaðarsinnar, studdir af Rússum, láti rigna sprengjum yfir úkraínskt herlið í kringum hernumdu svæðin.

Varaði hann við því að innrás Rússa yrði ofsafengin og ofbeldisfull aðgerð, „sem kosta myndi líf fjölmargra Úkraínumanna og Rússa, jafnt borgara sem hermanna“.

Enn fremur bætti hann við að ráða mætti af njósnagögnum að aðgerðir rússneska hersins verði enn hrottafengnari.

„Það verður stríð, háð af Rússlandi, á úkraínsku þjóðina til að bæla hana niður, kremja hana, og gera henni mein.“

Þjóðaröryggisráðgjafinn Jake Sullivan.
Þjóðaröryggisráðgjafinn Jake Sullivan. AFP

Úkraínumenn fari í fangabúðir

Eins og greint var frá fyrr í dag hafa Banda­ríkja­menn tjáð Sam­einuðu þjóðunum að þeir hafi upp­lýs­ing­ar um að Rúss­ar eigi lista yfir Úkraínu­menn „sem verða drepn­ir eða send­ir í fanga­búðir“ ef til inn­rás­ar kem­ur.

Þetta seg­ir í bréfi sem var sent til yf­ir­manns mann­rétt­inda­mála hjá SÞ.

Banda­rík­in hafa „áreiðan­leg­ar upp­lýs­ing­ar sem gefa til kynna að rúss­nesk­ar her­sveit­ir séu að búa til lista yfir ákveðna Úkraínu­menn sem verða drepn­ir eða send­ir í fanga­búðir í kjöl­far her­náms,“ segir einnig í bréf­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert