Evrópusambandið mun hefja ferli til að beita refsiaðgerðum gegn Rússum ef forsetinn Vladimír Pútín viðurkennir sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsvæða í austurhluta landsins.
Þetta sagði utanríkismálastjóri sambandsins, Josep Borrell, eftir fund með utanríkisráðherrum sambandsins í Brussel í kvöld.
„Það er sterk samstaða í Evrópusambandinu um að bregðast örugglega við,“ sagði hann og bætti við að ef Pútín myndi viðurkenna sjálfstæði svæða aðskilnaðarsinna, myndi hann leggja til viðskiptarefsiaðgerðir og ráðherrar sambandsins tækju lokaákvörðunina.
Á meðan Borrell ávarpaði blaðamenn eftir fundinn kom tilkynning frá Kreml þess efnis að Pútín væri að gera sig tilbúinn að viðurkenna sjálfstæði aðskilnaðarsinna í austanverðri Úkraínu, sem eru studdir af Rússlandi bæði leynt og ljóst.
Evrópusambandið hefur þegar hótað fordæmalausum refsiaðgerðum ef Rússar ráðast inn í Úkraínu.
Fyrr í dag óskuðu leiðtogar beggja svæðanna eftir sjálfstæðisviðurkenningu af hálfu Rússlands.
Pútín fundaði í dag með öryggisráði sínu, utan hefðbundinnar dagskrár, en í ráðinu koma saman hæst settu embættismenn landsins í varnar- og öryggismálum.
Héldu margir þeirra innblásnar ræður á fundinum þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við að sjálfstæði svæðanna yrði viðurkennt.
„Ég hef heyrt skoðanir ykkar. Ákvörðunin verður tekin í dag,“ sagði Pútín.