Úkraínski herinn neitar því að hafa skotið á landamærastöð rússnesku öryggislögreglunnar FSB og segir tilkynningu Rússa þess efnis vera „falsfréttir“.
„Við gátum ekki komið í veg fyrir að þeir birtu þessar falsfréttir en við viljum leggja á það áherslu að við skjótum ekki á húsnæði þar sem almennir borgarar eru staddir eða á eitthvað svæði í Rostov eða á nokkurn annan stað,“ sagði talsmaður úkraínska hersins, Pavlo Kovalchuk.
Fram kom í tilkynningu Rússa að landamærastöðin hafi eyðilagst vegna árásar Úkraínumanna á landamærastöðina í Rostov, um 150 metrum frá landamærum Rússlands og Úkraínu.
Þar kom einnig fram að enginn hafi slasast og að verkfræðingar á vegum rússneska hersins væru komnir á staðinn.