Öllum takmörkunum verður aflétt í Bretlandi frá og með fimmtudeginum 24. febrúar. Verður því einstaklingum sem smitaðir eru af veirunni ekki lengur skylt að einangra sig.
Þetta kom fram í ávarpi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á breska þinginu í dag.
Þá mun sá 500 punda tékki sem hingað til hefur verið greiddur út til þeirra í lágum tekjuhópum sem greinast með veiruna einnig verða lagður af.
Áfram er þeim sem smitast ráðlagt að halda sig heima fyrir en frá og með fimmtudeginum verður það ekki skylda.
„Covid mun ekki hverfa svo skyndilega. Ef við bíðum með eftirstandandi afléttingar þar til stríðið er unnið þá værum við að takmarka frelsi hins breska almennings um ókomna tíð,“ sagði Johnson í ræðu sinni.
Johnson bætti við að þrátt fyrir að einkenni Ómíkron-afbrigðisins séu væg þá sé ekkert vitað um hvernig veiran muni þróast í framtíðinni. Enn sé möguleiki á að fram komi verri afbrigði, að sögn vísindamanna breskra stjórnvalda.
„Þeir eru vissir um að það komi fram önnur afbrigði.“
Því verði enn fylgst með gögnum um komandi bylgjur veirunnar.