Pútín og Biden ætla að hittast á leiðtogafundi

Samsett mynd af Biden og Pútín.
Samsett mynd af Biden og Pútín. AFP

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, og Joe Biden Bandaríkjaforseti hafa samþykkt að hittast og ræða málin vegna Úkraínudeilunnar. Að sögn frönsku forsetaskrifstofunnar samþykktu leiðtogarnir fundinn „í meginatriðum“. Fundurinn verður haldinn svo lengi sem Rússar ráðast ekki inn í Úkraínu.

Háttsettur embættismaður sagði við AFP-fréttastofuna að tímasetning fundarins hafi ekki verið ákveðin og allt væri enn á byrjunarreit.

Bandaríkin hafa varað við yfirvofandi innrás Rússa í Úkraínu og sagði Hvíta húsið í yfirlýsingu sinni að bandarísk stjórnvöld væru enn reiðubúin til að bregðast skjótt við og með alvarlegum afleiðingum fari svo að Rússar ráðist inn í Úkraínu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Pútín ræddust lengi við á símafundi í gær þar sem farið var yfir stöðu mála í Úkraínudeilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert