Bandaríkin hafa ákveðið að bíða og sjá hvað gerist nú, eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti skipaði her sínum að ráðast yfir landamæri Úkraínu.
Viðræður eru enn mögulegar, „þangað til skriðdrekarnir rúlla“, tjáir háttsettur bandarískur embættismaður AFP-fréttaveitunni.
Bendir hann á að herlið Rússa hafi þegar verið óopinberlega á svæðum aðskilnaðarsinna undanfarin átta ár.
„Rússneskt herlið sem færi inn í Donbass-svæðið væri ekki nýtt skref,“ segir embættismaðurinn, sem vill ekki láta nafns síns getið.
Bandaríkin hafa þó þegar tilkynnt um efnahagsþvinganir sem beinast gegn aðskilnaðarsvæðunum sjálfum. Einnig hafa þau óskað eftir því að Öryggisráð SÞ komi saman til neyðarfundar sem fyrst.