Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman til neyðarfundar klukkan 21 í kvöld að staðartíma í New York, eða klukkan 2 eftir miðnætti að íslenskum tíma.
Fylgjast má með fundinum í beinu streymi hér að neðan.
Fundurinn kemur í kjölfar viðurkenningar Rússlands á sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu og fyrirskipun Vladimírs Pútíns forseta um að rússneski herinn ráðist yfir landamærin.
Fulltrúar Rússlands, sem fer um þessar mundir með formennsku í ráðinu, vildu að fundurinn yrði haldinn fyrir luktum dyrum en Bandaríkin munu hafa þvertekið fyrir það.
Óstaðfestar fregnir eru farnar að berast um að innrás sé þegar hafin yfir landamærin.
Bandaríkin og bandamenn þeirra óskuðu fyrr í kvöld eftir því ráðið kæmi saman strax í kvöld.
Beiðnina undirrituðu að minnsta kosti fulltrúar Bandaríkjanna, Frakklands, Bretlands, Írlands og Albaníu.
Úkraínski utanríkisráðherrann Dmytro Kuleba hafði einnig sagt að stjórnvöld þar í landi hefðu óskað eftir því að ráðið kæmi saman sem fyrst.