„Megum ekki líta undan“

Linda Thomas-Greenfield ávarpar öryggisráðið í kvöld.
Linda Thomas-Greenfield ávarpar öryggisráðið í kvöld. AFP

Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, fordæmdi í nótt árás Rússa á Úkraínu og viðurkenningu Pútíns Rússlandsforseta á Donbass-héruðunum tveimur.

„Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hefur stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna staðið sem brjóstvörn gegn verstu hvötum heimsvelda og einræðisherra,“ sagði Thomas-Greenfield í upphafi ávarps síns á opnum fundi öryggisráðs SÞ.

Thomas-Greenfield fordæmdi sérstaklega ákvörðun Pútíns að senda herlið til Donbass-héraðanna undir því yfirskini að þeir væru friðargæsluliðar.

„Það er fáránlegt. Við vitum hvað þeir eru,“ sagði hún.

„Með aðgerðum sínum hefur hann fært heiminum val. Við verðum að mæta þessari stund og við megum ekki líta undan. Sagan segir okkur að það að líta framhjá slíkum fjandskap muni verða enn dýrkeyptara.“

Hún sagði að árás Rússa á Úkraínu væri án nokkurrar ástæðu, og væri jafnframt árás á stöðu Úkraínu sem aðildarríkis Sameinuðu þjóðanna, og væri skýrt brot á stofnsáttmála þeirra.

Vladimír Pútín undirritar tilskipun um viðurkenningu Rússlands á Donbass-héruðunum.
Vladimír Pútín undirritar tilskipun um viðurkenningu Rússlands á Donbass-héruðunum. AFP

Ætti tilkall til Finnlands og hluta Póllands

„Við þurfum ekki að giska á ástæður Pútíns,“ sagði Thomas-Greenfield og vísaði í ræðu hans fyrr í gær, þar sem hann sagði meðal annars að Rússland ætti tilkall til allra landsvæða sem hefðu tilheyrt rússneska keisaradæminu.

Taldi Thomas-Greenfield upp þau svæði, en þar á meðal eru Finnland, Eystrasaltsríkin, sem og hlutar af Póllandi og Tyrklandi.

„Í grunninn vill Pútín að heimurinn fari aftur í tímann, fyrir stofnun Sameinuðu þjóðanna, til þess tíma er heimsveldi réðu heiminum. En heimurinn hefur farið áfram. Árið er ekki 1919, heldur 2022,“ sagði Thomas-Greenfield.

Rifið sáttmálann í tætlur

Hún bætti við að Pútín væri nú að reyna á alþjóðakerfið og láta reyna á hversu langt hann gæti gengið.

„Í dag hefur Pútín rifið Minsk-sáttmálann í tætlur. Við trúum ekki að hann muni láta þar við sitja,“ sagði Thomas-Greenfield og bætti við að Bandaríkjastjórn myndi grípa til frekari viðskiptaþvinganna gegn Rússlandi í dag, þriðjudag.

„Á þessari stundu getur enginn setið á hliðarlínunni. Við verðum að gera það skýrt, að árás á Úkraínu er árás á fullveldi allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, og árás á stofnsáttmála þeirra, og að henni verður mætt með alvarlegum afleiðingum,“ sagði Thomas-Greenfield að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert