Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna hafa samþykkt einróma refsiaðgerðir gegn Rússum fyrir ákvörðun þeirra um að viðurkenna sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu og fyrir að skipa rússneska hernum yfir landamæri Úkraínu.
Frá þessu greindi Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, í dag.
ESB-ríkin „samþykktu einróma upphaflegan refsiaðgerðapakka“, sagði Le Drian á blaðamannafundi eftir fund ráðherranna í París. Sakaði hann Rússa um að brjóta alþjóðalög og um leið brjóta skuldbindingar sínar.
Þá sagðist Le Drian ætla að hætta við fund sem hann hugðist eiga með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands í París á föstudag.
„Svarið er nei,“ sagði Le Drian spurður hvort fundurinn væri enn á dagskrá. Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, bætti því þó við að „diplómatískar aðgerðir til að koma í veg fyrir stríð í Evrópu“ væru enn til umræðu.