Rússar neita að innrás sé hafin

Frá miðborg Moskvu fyrr í dag.
Frá miðborg Moskvu fyrr í dag. AFP

Rússland hefur ekki uppi áform um að senda herlið inn í austurhluta Úkraínu „að sinni“, en mun gera það ef ógn kemur fram.

Þetta sagði aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands í yfirlýsingu í dag, eftir að þingið skrifaði undir samninga um samvinnu með svæðum aðskilnaðarsinna.

Fyrr í dag fékkst þó staðfest að her Rússlands hefði farið yfir landamærin í kjölfar skipunar Pútíns.

Ráðherrann, Andrei Rudenko, sagði samningana fela í sér loforð um hernaðaraðstoð en að forðast ætti vangaveltur um sendingu herliðs.

„Í bili, þá er enginn með áætlanir um að senda nokkuð eitthvert. Ef það er ógn, þá munum við veita aðstoð í samræmi við samningana.“

Fleiri tugþúsundir hermanna

Forsetinn Vladimír Pútín skipaði her Rússlands í gærkvöldi að sinna svokölluðu friðargæsluhlutverki á svæðunum Donetsk og Lugansk, sem hann hafði fyrr um kvöldið viðurkennt sem sjálfstæð.

Á annað hundrað þúsund rússneskra hermanna hafa umlukið landamæri Úkraínu í norðri og austri. Á Vesturlöndum ríkir enn mikill ótti um að Pútín kunni að skipa þeim til innrásar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert