Sendir aukinn herafla til Evrópu

Biden hélt blaðamannafund í Hvíta húsinu fyrir stundu.
Biden hélt blaðamannafund í Hvíta húsinu fyrir stundu. AFP

„Þetta er upphafið að rússneskri innrás í Úkraínu,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi nú fyrir stundu.

Vísaði hann til yfirlýstra fyrirætlana Vladimírs Pútín Rússlandsforseta, um að senda herlið djúpt inn í Donbas-svæðið.

Pútín sagðist fyrr í dag hafa viðurkennt sjálfstæði svæða aðskilnaðarsinnanna í Úkraínu samkvæmt skilgreiningu héraðanna sem þau tilheyra. Önnur landsvæði innan héraðanna Donetsk og Lugansk, sem eru ekki á valdi aðskilnaðarsinna, tilheyri því í raun aðskilnaðarsinnum.

Hefur hefur hann þar með gefið möguleika á innrás út fyrir núverandi víglínu og lengra inn í Úkraínu.

Útilokað frá vestrænum fjárfestingum

Á blaðamannafundinum greindi Biden frá fyrstu refsiaðgerðum Bandaríkjanna gegn Rússum og sagði Bandaríkin ætla að beita harðari refsiaðgerðum en þau gerðu árið 2014.

Fela refsiaðgerðirnar meðal annars í sér tilraun til að svelta rússnesk stjórnvöld fjárhagslega.

„Við erum að innleiða þvinganir gagnvart ríkisskuldum Rússlands. Það þýðir að við munum útiloka ríkisstjórn Rússlands frá vestrænum fjárfestingum.“

Þá muni aðgerðirnar einnig beinast að rússneskum fjármálastofnunum, auðjöfrum og fjölskyldumeðlimum þeirra, að sögn Biden.

Biden á blaðamannafundinum.
Biden á blaðamannafundinum. AFP

Sendir aukinn herafla til Austur-Evrópu

Jafnframt sagði Biden Bandaríkin ætla að halda áfram að útvega úkraínska hernum vopn til að verja sig frá Rússum, og sömuleiðis senda fleiri bandaríska hermenn til að aðstoða bandamenn Atlantshafsbandalagsins í Austur-Evrópu.

„Ég hef heimilað viðbótarflutning bandarísks herafla og búnaðar, sem þegar er staðsettur í Evrópu, til að styrkja bandamenn okkar í Eystrasaltsríkjunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen,“ sagði hann.

„Við skulum hafa það alveg á hreinu að þetta eru varnaraðgerðir af okkar hálfu.“

Hann sagði þó enn tíma til að afstýra blóðugri innrás Rússa í Úkraínu með diplómatískum viðræðum.

„Það er engin spurning að Rússland er árásaraðilinn, svo við erum mjög vakandi fyrir þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Engu að síður er enn tími til að koma í veg fyrir þá ómældu þjáningu sem milljónir manna verða fyrir, geri Rússar frekari innrás.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert